Stormur og stórhríð brast á í Hrafntinnuskeri aðfaranótt mánudags og er þar allt orðið hvítt af snjó. Hrafntinnusker er einn áfanga á Laugaveginum, vinsælustu gönguleið landsins. Ferðafélag Íslands er með skála í Hrafntinnuskeri og á heimasíðu FÍ er brýnt fyrir göngufólki að vera vel búið á gönguferðum og kanna vel veðurspá áður en haldið er til fjalla. Ljóst má vera að fyrstu haustlægðirnar hafa dunið yfir af miklu afli.