Regluleg þjónusta Stígamóta hefst á Suðurlandi í september og hafa samtökin boðið til kynningarfunda á svæðinu. Þjónustan hefur til þessa fyrst og fremst nýst höfuðborgarsvæðinu. Nýverið hófst hún á Austurlandi.
Vefur Hafnar í Hornafirði skýrir frá því að starfsfólk Stígamóta muni kynna tilraunaverkefnið á Höfn í Hornafirði, í Vestmannaeyjum og í Árborg dagana 1.-4. september.
Haldnir verða lokaðir fundir með fagfólki á hverjum stað,
framhaldsskólar verða heimsóttir og boðið verður upp á opna
kynningarfundi, ásamt kynningum í fjölmiðlum.
Starfið mun fara þannig fram að Sunnlendingar sem beitt hafa verið
kynferðisofbeldi geta hringt til Stígamóta í síma 5626868 og pantað
tíma og fá þá að vita hvar og hvenær þeim bjóðast viðtöl.
Stígamót bjóða upp á ókeypis viðtalsþjónustu og sjálfshjálparstarf
fyrir konur og karla sem beitt hafa verið hvers kyns kynferðisofbeldi.