Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu greiddu íslensk stjórnvöld alls 22 milljónir króna til handa tveimur bandarískum hagsmunavörðum, lobbýistum, sem ráðnir voru á árunum 2001 til 2003 til að afla málstað sínum fylgis í deilunni við Bandaríkjamenn um orrustuþoturnar á Keflavíkurflugvelli.
Um var að ræða James F. Kuhn, sem fékk greidda alls ríflega 196 þúsund dollara frá júlí 2001 til júní 2003, sem jafngilda um 16 milljónum króna á núvirði. Þá fékk Sig Rogich 75 þúsund dollara árið 2003 fyrir þriggja mánaða vinnu, jafnvirði um sex milljóna króna, en samkvæmt svörum utanríkisráðuneytisins fóru þær greiðslur gegnum fyrirtækið Berman Enterprises.
Upplýsinga um þennan kostnað íslenskra stjórnvalda var aflað hjá utanríkisráðuneytinu í kjölfar greinar Vals Ingimundarsonar sagnfræðings sem birtist nýlega í bókinni Uppbrot hugmyndakerfis: Endurmótun íslenskrar utanríkisstefnu 1991-2007. Þar upplýsti Valur um ráðningu þessara tveggja manna. Kom m.a. fram í grein Vals að íslensk stjórnvöld hefðu lítið tillit tekið til ráðlegginga þessara manna.
Nánar verður fjallað um þetta í Morgunblaðinu á morgun.