Gengislækkun íslensku krónunnar kemur illa niður á hjálparstarfi við bágstödd börn. Til að bregðast við föllnu gengi hafa SOS-barnaþorpin og ABC Barnahjálp ýmist hækkað styrktargjöld stuðningsmanna hér á landi eða óskað eftir því að þeir auki styrkinn við skjólstæðinga.
SOS-barnaþorpin hafa tilkynnt að mánaðarlegt framlag til styrktar börnum á vegum samtakanna verði hækkað í 3.000 kr. á mánuði úr 2.300 kr. og mánaðarlegt framlag þeirra sem styrkja þorp verði 2.500 kr. en var 1.800 kr. Ragnar Schram, kynningarstjóri SOS-barnaþorpa á Íslandi, sagði mun fleiri styrkja börn en þorp.
ABC Barnahjálp sendi „neyðarkall“ til styrktarmanna síðastliðið fimmtudagskvöld. Þar sagði m.a.: „Allir sjóðir ABC eru nú uppurnir og þó hefur ekki verið hægt að senda nauðsynlegt fjármagn til barnanna. Matarreikningar hafa hlaðist upp og þolinmæði birgja er á þrotum.“
Guðrún Margrét sagði að frá því að neyðarkallið var sent hafi bæst við á annað hundrað nýir styrktarmenn. Á vegum ABC Barnahjálpar eru nú um tólf þúsund börn víða um heim.