Eldri hetjur syngja fyrir þær nýju

Valgeir Guðjónsson stýrir hátíðarhöldunum í dag
Valgeir Guðjónsson stýrir hátíðarhöldunum í dag mbl.is/Jim Smart

„Þetta verður gert af eins miklum myndarskap og hægt er að stofna til á svona stuttum tíma,“ segir söngvarinn og lagahöfundurinn Valgeir Guðjónsson en hann mun stjórna hátíðarhöldunum sem fram fara í dag vegna heimkomu íslensku ólympíufaranna, og þá sérstaklega íslenska handboltalandsliðsins.

Stóra sviðið sem notað var á stórtónleikum Menningarnætur á Klambratúni hefur verið reist á Arnarhóli og þar mun Valgeir stíga á svið ásamt góðum hópi tónlistarmanna á borð við Pál Óskar og hina söngelsku Fjallabræður að vestan.

„Páll Óskar opnar hátíðarhöldin, svo verð ég einskonar veislustjóri og við ætlum að gera okkar ýtrasta til að fá fólkið á hólnum til að taka þátt, bæði með hrópum og söng.“ Hápunktur hátíðarhaldanna verður tvímælalaust samsöngur Valgeirs, Fjallabræðra og gamalla handboltakappa á hinu klassíska baráttulagi íslenska handboltalandsliðsins, Við gerum okkar besta. Lagið vinsæla sem var tekið upp árið 1986, og var sungið af mörgum ástsælustu handboltamönnum þjóðarinnar, hefur elst ótrúlega vel og lifir enn góðu lífi í söngminni landsmanna.

Valgeir bætir við að sérstakur leynigestur muni taka þátt í flutningi lagsins en þvertekur fyrir að leysa frá skjóðunni hver sá leynigestur sé enda væri hann þá varla leynigestur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert