Fagnar Össuri sem bandamanni

Össur ræðir við Pétur Guðmundsson í Ófeigsfirði en Pétur á …
Össur ræðir við Pétur Guðmundsson í Ófeigsfirði en Pétur á stærstan hluta vatnsréttinda sem tengjast Hvalánni. mynd/litlihjalli.it.is

Össuri Skarphéðinssyni er fagnað sem bandamanni en um leið er hann gagnrýndur fyrir skothríð á samstarfsmenn sína. Orkubústjóri Vestfjarða svarar Össuri á heimasíðu hans.

Kristján Haraldsson, orkubússtjóri hjá Orkubúi Vestfjarða, segist fagna Össuri Skarphéðinssyni iðnaðarráðherra innilega sem bandamanni Vestfirðinga í úrbótum í orkumálum. Hins vegar kunni hann illa við að nýr bandamaður hefji samstarfið með skothríð á samstarfsmenn sína. Það er vefur Bæjarins besta sem skýrir frá þessu.

Ráðherra sagði í bloggfærslu að hann undraðist af hverju sveitarstjórnarmenn vestra og Orkubúið hafi ekki þrýst meira á sig að breyta bágu ástandi í orkumálum fjórðungsins. 

Kristján setti því athugasemd á heimasíðu ráðherra til varnar Orkubúi Vestfjarða.

Þar segir Kristján: „Orkuflutningur til Vestfjarða hefur um áratugaskeið verið mjög ótryggur svo ekki sé meira sagt. Orkubú Vestfjarða hefur ítrekað gert athugasemdir við flutningsaðila og farið fram á úrbætur, fyrst Landsvirkjun og síðar Landsnet.“ og „Um þetta liggja allar upplýsingar fyrir í iðnaðarráðuneytinu“,

Hvað varðar virkjun Hvalár í Ófeigsfirði, sem Össur segir að myndi verða himnasending fyrir Vestfirðinga og framleiða fast að 40 MW sem eru töluvert meira en Vestfirðir þurfa í dag, segir Kristján:

„Orkubú Vestfjarða hefur allt frá stofnun fyrirtækisins ýtt á eftir rannsóknum á þessum virkjunarkosti og komið að rannsóknunum nú síðustu ár með Orkustofnun.“ og „Þá hefur Orkubúið óskað þess að Hvalárvirkjun og Glámuvirkjun verði teknar með í rammaáætlun en þeim óskum hefur ekki enn verið sinnt. En af hverju hefur Orkubú Vestfjarða ekki látið til skarar skríða og hafið virkjunarframkvæmdir?“

Einfaldlega vegna þess að virkjunin er að okkar mati of dýr miðað við aðra virkjunarkosti á Íslandi og er af Orkustofnun metin í II. flokki.

Eitt MW í gufuaflsvirkjun í dag er talið kosta 150-200 Mkr. og á sama tíma kostar 1 MW í Hvalárvirkjun 300-350 Mkr.

Orkubúi Vestfjarða er því miður ekki kunnugt um neinn orkukaupanda sem er reiðubúinn að greiða nægilega hátt raforkuverð til að standa undir byggingu Hvalárvirkjunar, þar stendur hnífurinn í kúnni,“ segir Kristján.


Meira á Bæjarins besta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert