Flugvél frá Iceland Express sem átti að fara frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur klukkan 13 að dönskum tíma mun ekki leggja af stað fyrr en í nótt. Bilun sem kom í ljós í athugun flugstjóra reyndist vera meiri en í upphafi var talið.
Bilunin var uppgötvuð í hefðbundinni athugun flugmanns fyrir flugtak og voru farþegar fluttir frá borði. Í fyrstu var talið var bilunin væri smávægileg og var farþegum sagt að vélin færi klukkan 16. Við nánari skoðun kom þó í ljós að bilunin var meiri en áætlað var og nauðsynlegt að fara með vélina í skýli og gera við hana þar. Er áætlað að vélin fari til Íslands klukkan fjögur í nótt.
Búið er að útvega öllum þeim hótelgistingu sem það þurftu en sumir vildu gista hjá ættingjum og var þá borgað fyrir leigubíl þangað.
Óánægðir farþegar höfðu samband við mbl.is núna seinni partinn og voru þá ekki komnir með hótelgistingu.
„Það tók svolítinn tíma að finna gistingu fyrr svona stóran hóp,“ segir Lára Ómarsdóttir, talsmaður IE. „Það er venjulega erfitt að finna gistingu í Kaupmannahöfn á þessum tíma og núna var það óvenju erfitt því stór hátíð er í borginni núna, Copenhagen Food Festival. Við létum því fjölskyldufólk ganga fyrir og hinir urðu að bíða eitthvað.”
Allir munu vera farnir af flugvellinum núna fyrir utan fjóra sem kusu að dveljast þar þangað til vélin fer.