Íslensku landsliðsmennirnir í handknattleik verða sæmdir riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu þegar þeir snúa heim úr hinni miklu frægðarför til Kína.
Þorbergur Halldórsson gullsmiður annast smíði fálkaorðunnar fyrir forsetaembættið. Halda mætti að hann sæti við orðusmíði dag og nótt enda sjaldgæft að svo margar orður séu nældar á menn á einu bretti. En svo reynist ekki vera. Nægilega margar orður eru til á lager til að næla í barminn á strákunum okkar.
Að sögn Þorbergs eru gerðar áætlanir fyrirfram fyrir hvert ár. Orður eru að jafnaði veittar tvisvar á ári, á nýársdag og 17. júní. Eru þær að jafnaði á bilinu 10 til 15 talsins í hvort skipti. Einstaka orður eru veittar þess á milli og auk þess eru veittar orður þegar forseti Íslands fer í opinberar heimsóknir.