Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, tilkynnti í móttöku fyrir íslenska handboltalandsliðið á Kjarvalsstöðum, að stofnaður yrði svonefndur Silfursjóður með 20 milljóna króna framlagi.
Markmiðið með stofnun sjóðsins er að gera ungmennum kleift að kynnast handboltaíþróttinni fram að ólympíuleikunum í Lundúnum 2012. Veitt verður framlag úr sjóðnum, 5 milljónir króna á ári, þangað til. Ólafur Stefánsson, fyrirliði íslenska handboltalandsliðsins, hefur þekkst boð borgarstjóra um að vera verndari sjóðsins.
Hanna Birna sagði m.a. að hún liti einnig á sjóðinn sem gjöf til reykvískra barna. Íþróttafélög og skólar í Reykjavík geta sótt um fjármagn úr sjóðnum árlega. Íþrótta- og tómstundaráð auglýsir styrkina lausa til umsóknar. Skipuð verður sérstök valnefnd þar sem fulltrúar frá íþrótta- og tómstundaráði og menntaráði meta umsóknir. Við ákvörðun um úthlutun styrkja verður aðallega horft til yngri flokka.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, fékk aðstandendur og fjölskyldur landsliðshópsins upp á svið í Kjarvalsstöðum og hrópuðu samkomugestir ferfalt húrra fyrir þeim. Fékk hópurinn síðan súkkulaði og rósir að gjöf.