VM: Gengur illa að fá sjómenn með réttindi

Fundur í kjaranefnd sjómanna VM félagi vélstjóra og málmtæknimanna sér fram á alvarlegt ástand í mönnunarmálum og harðar deilur vegna olíukostnaðar skipa. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
 
Á fundi í kjaranefnd sjómanna hjá VM, sem haldinn var á föstudaginn, var m.a. fjallað um kröfu útgerðarmanna um að áhafnir taki þátt í olíukostnaði skipa. Var kjaranefnd sjómanna VM sammála um að þátttaka í olíukostnaði væri ekki til umræðu og yrði alfarið hafnað í komandi kjarasamningaviðræðum. Verður þetta líklega helsta deilumál þessara samninga.

„Á fundinum var m.a. fjallað um afgreiðslu mönnunarnefndar á fækkun vélstjóra um borð í fiskiskipum og ástandið í undanþágumálum. Fundarmenn voru ekki sáttir við vinnubrögð mönnunarnefndar að heimila fækkun vélstjóra án undangenginnar könnunnar á vinnuálagi þeirra. Telja fundarmenn að vinnulýsing fyrir vélstjóra verði að liggja fyrir svo hægt sé að leggja rétt mat á mönnunina fyrir viðkomandi skip. Hugtakið vaktfrítt vélarrúm sé ekki rétt túlkað.

Varðandi undanþágumálin kom það fram að vöntun á vélstjórum á fiskiskipaflotann með nægileg réttindi er að koma betur í ljós, eftir að undanþágunefndin fór að vinna eftir mjög skýrum lögum frá árinu 2007 og hefur þess vegna lítið svigrúm til að gefa undanþágur eins og áður var. Því er að skapast mjög alvarlegt ástand í sumum flokkum útgerðar, erfitt virðist að finna einfalda lausn á vandanum, þar sem menn með réttindi fást ekki í þessi störf.

Einnig var fjallað um kjarasamninga vélstjóra á fiskiskipum. Þar standa viðræður yfir en aðalbitbeinið í þeim samningum töldu fundarmenn vera kröfu útgerðanna um að áhafnir taki aukinn þátt í olíukostnaði skipanna. Fundarmenn voru sammála um að aukin þátttaka í olíukostnaði væri ekki til umræðu og alfarið hafnað," samkvæmt tilkynningu .

VM er kemur að alls 27 kjarasamningum. Það sem af er árinu hefur félagið lokið við gerð almenns samnings vegna vélstjóra, málmtækni- og netagerðarmanna við Samtök atvinnulífsins, samningum fyrir málmtæknimenn og vélfræðinga sem starfa hjá Orkuveitu Reykjavíkur og samningi vegna vélstjóra á skipum Landhelgisgæslunnar.

Atkvæði í póstatkvæðagreiðslu um kjarasamning VM við Samtök atvinnulífsins, um kaup og kjör vélstjóra á kaupskipum, voru talinn 20. ágúst. Á kjörskrá voru 36 og greiddu 26 atkvæði, eða 72%. Atkvæði féllu þannig að 23 samþykktu samninginn er þrír voru á móti. Kjarasamningurinn var því samþykktur með 88,4 % greiddra atkvæða. Þessir starfsmenn skipafélaganna eru starfsmenn á kaupskipum sem skráð eru erlendis.

Viðræður vegna samninga vélstjóra á fiskiskipum og á sandæluskipum standa nú yfir. Í október næstkomandi losna samningar við Faxaflóahafnir. Í nóvember losna samningar vegna vélstjóra á skipum Hafrannsóknastofnunar, samningar vegna vélstjóra og málmtæknimanna á samningi við Launanefnd sveitarfélaga og kjarasamningur við Alcan.
Í desember 2008 losna svo samningar vegna vélfræðinga og málmtæknimanna hjá Landsvirkjun og vegna vélfræðinga hjá Landsneti, Hitaveitu Suðurnesja og hjá Orkubúi Vestfjarða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert