Fyrr í mánuðinum birtust auglýsingar í Lögbirtingablaðinu þar sem pólsk hjón voru kölluð fyrir dóm á Sauðarkróki vegna umferðarlagabrota. Athygli vekur, að auglýsingin var á pólsku. Undir auglýsingunum voru nöfn Halldórs Halldórssonar héraðsdómara og Ríkharðs Mássonar sýslumanns á Sauðárkróki.
Halldór Halldórsson sagði í samtali við Morgunblaðið að eðlilegt væri að auglýsa eftir fólkinu á móðurmáli þess, pólsku. Það væri jafn-eðlilegt og þegar auglýst væri eftir Íslendingum á íslensku. Ef fólk mætir ekki fyrir dóm til að hlýða á ákærur vegna brota, skal lögum samkvæmt birta þeim fyrirkall í Lögbirtingablaðinu. Í þessu tilfelli hefði Ríkharður Másson sýslumaður haft frumkvæði að því að þýða fyrirkallanir yfir á pólsku.