Geir H. Haarde forsætisráðherra hóf opinbera heimsókn sína í Grikklandi í dag á morgunfundi með Kostas Karamanlis forsætisráðherra Grikklands. Að sögn Geirs gengur heimsóknin vel og sérstaklega ánægjulegt hafi verið að sjá íslenska fánanum flaggað í miðborg Aþenu.
„Við fórum yfir sviðið á breiðum grundvelli, bæði tvíhliða samskipti ríkjanna og ýmis alþjóðleg málefni,“ segir Geir.
„Það eru auðvitað engin vandamál í samskiptum landanna en við komum víða við sögu. Það er nýbúið að klára nýsköpunarsamning og menn vilja gjarnan að byggt verði frekar á honum og reynt að auka enn á viðskipti milli ríkjanna. Ég bauð honum svo í heimsókn heim og hann tók því mjög líklega og var ánægður með það.“
Að fundinum loknum var farið í nýtt fornminjasafn við Akrópólis-hæð, sem senn verður opnað almenningi. Í kvöld stendur forsætisráðherra svo fyrir móttöku á heimili ræðismanns Íslands í Aþenu þar sem tekið verður á móti gestum úr stjórnmálum og atvinnulífi Grikklands.