Aðeins ein björgunarþyrla af þremur hjá Landhelgisgæslunni er með nætursjónaukum sem stendur. Verið er að setja slíkan búnað í aðra þyrlu og eru vonir bundnar við að því verki ljúki með haustinu. Ekki stendur hins vegar til að setja nætursjónauka í þriðju þyrluna þar sem Gæslan hefur ekki fjárheimildir til þess.
Afar langt og kostnaðarsamt ferli fylgir því að setja nætursjónauka í björgunarþyrlu en kostnaðurinn hleypur á fleiri milljónum króna.
Þyrlukostur Gæslunnar samanstendur nú af tveimur stórum þyrlum af gerðinni Super Puma, TF-LIF og TF-GNA. Sú fyrrnefnda er með nætursjónaukum en sú síðarnefnda, sem er leiguþyrla frá Noregi, er ekki komin með slíkan búnað. Þegar Norðmenn leigðu Íslendingum þyrluna átti hún að vera með nætursjónauka við afhendingu en að sögn Höskuldar Ólafssonar tæknistjóra Gæslunnar höfðu Norðmennirnir ekki lokið ísetningunni. Er það því á þeirra hendi að stýra þyrlunni í gegnum hið mjög svo flókna ferli hjá EASA, Flugöryggisstofnun Evrópu.
„Það er mjög erfitt að fá samþykkt fyrir búnaði af þessum toga," bendir Höskuldur á. „Búnaðurinn þarf að fara í gegnum mjög strangar prófanir hjá EASA en við erum að vonast til að lýsingin verði tilbúin til notkunar í október og í kjölfarið fái hún stimpil."
Þriðja þyrlan, sú minnsta í flota Gæslunnar, TF-EIR, er án nætursjónauka og ekki stendur til að setja búnaðinn í þyrluna. Segir Geirþrúður Alfreðsdóttir flugrekstrarstjóri Gæslunnar að stofnunin hafi ekki fjárhagslegt bolmagn til verksins. Að mati hennar væri vissulega æskilegt að hafa allar þyrlurnar úbúnar með besta búnaði sem mögulegur er á hverjum tíma, en Gæslan þurfi að haga starfsemi sinni í samræmi við aðstæður.
Þegar TF-SIF, sem var sömu gerðar og TF-EIR, lenti í sjónum úti fyrir Straumsvík fyrir rúmu ári síðan, var hún á lokahnykknum í tveggja ára ísetningarferli