Nektardans á Óðali og Vegas heimilaður

Á fundi borgarráðs sem var að ljúka voru teknar fyrir umagnir um veitingahúsin Óðal og Vegas þar sem gefin er heimild til að veitingahúsin bjóði upp á nektardans innan sinna vébanda. Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar lögðu fram tillögu að umsögn sem var felld.

Samkvæmt upplýsingum frá Svandísi Svavarsdóttur, borgarfulltrúa VG, var lögð fram sameiginleg ályktunartillaga borgarráðs þar sem skorað er á Alþingi að gera þær breytingar sem þarf á lagaumhverfinu til að koma megi í veg fyrir starfsemi af þessu tagi.

Segir Svandís þetta vera stórtíðindi ef marka má fyrri umræðu hægri manna um nektardans og meint atvinnufrelsi tengt slíkri starfsemi.

Ályktunin er eftirfarandi:

„Nýlegur úrskurður dómsmálaráðuneytisins varðandi nektardans á veitingastaðnum Goldfinger í Kópavogi vekur áleitnar spurningar um hvort 4. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2007, sem kveður á um bann við slíkri starfsemi, sé gagnslítil.

Í borgarstjórn ríkir þverpólitísk samstaða um að vinna beri gegn klámvæðingu því skorar borgarráð á Alþingi Íslendinga að breyta lögum þannig að sem fyrst fáist skýrar lagaheimildir til að koma í veg fyrir starfsemi nektardansstaða."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka