Borgarráð hefur að tillögu borgarstjóra samþykkt að fela Framkvæmda- og eignasjóði Reykjavíkurborgar að endurskoða reglur um lóðaúthlutanir á vegum Reykjavíkurborgar í því skyni að auðvelda almenningi að eignast lóðir í Reykjavík. Tillagan var samþykkt samhljóða á fundi borgarráðs í morgun.
Í málefnasamningi nýs meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er lögð áhersla á að auðvelda íbúum að byggja og búa í Reykjavík. Með tilliti til núverandi efnahagsástands þykir ástæða til að endurskoða reglur um lóðaúthlutanir í því skyni að létta greiðslubyrði húsbyggjenda.
Lóðaúthlutunum til fólks og fyrirtækja undir kjörorðinu Veldu þinn stað verður haldið áfram. Markvissari uppbygging verður tryggð, til að mynda með því að tryggja Framkvæmda- og eignasjóði aukið sjálfstæði og svigrúm.
Á fundi borgarráðs var einnig samþykkt tillaga Samfylkingarinnar og VG um að við endurskoðun reglna um lóðaúthlutanir verði sérstaklega hugað að lóðaúthlutunum fyrir leiguíbúðir. Segir í tillögnni, að sú þróun, sem eigi sér stað á húsnæðismarkaði, skapi jarðveg fyrir almennan leigumarkað á höfuðborgarsvæðinu og því sé mikilvægt að Reykjavíkurborg hagi vinnu sinni í samræmi við það.
Nýjar úthlutunarreglur verða lagðar fram í borgarráði eigi síðar en 1. október nk.