Reynt að ræna íslensku barni í Frankfurt

Frá Frankfurt.
Frá Frankfurt. AP

Hrund Karlsdóttir, frá Bolungarvík, segir við fréttavef Bæjarins besta í dag, að reynt hafi verið að ræna dóttur hennar um hábjartan dag í verslunarmiðstöð í Frankfurt í Þýskalandi. Hrund var stödd þar í sumarfríi á dögunum ásamt dóttur sinni sem er á sjötta ári.

„Ég var að fara með barnið mitt á klósettið þegar ég sá mann fyrir utan sem virtist vera eitthvað skrítinn. Ég harðbannaði því dóttur minni að fara út á undan mér. Þegar við erum að ganga út saman er hún aðeins um skrefi á undan þegar maðurinn kippir í hana“, segir Hrund við bb.is.  „Ég náði henni af manninum og hljóp í burtu.“

Aðspurð hvort Hrund hafi haft samband við lögreglu eða öryggisverði í verslunarmiðstöðinni segir hún svo ekki vera. „Maður hugsar ekkert á svona stundu. Maður vill bara koma sér burt.“

Hrund vonar að reynsla hennar verði til þess að aðrir muni hafa vakandi auga með börnum sínum þegar þeir ferðast með þau í útlöndum. „Maður veit aldrei hvað getur gerst og maður verður alltaf að vera með augun opin. Nú veit ég af eigin reynslu af hverju fólk er alltaf að segja manni að passa börnin sín. Ég var með dóttur mína á sólarströnd á síðasta ári og þurfti þá engar áhyggjur að hafa en svo fer maður í verslunarmiðstöð í Þýskalandi og lendir í þessu. Maður verður því alltaf að vera vakandi.“

Bæjarins besta

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert