Sólarhringsbið á Kastrup

Kastrup
Kastrup mbl.is/GSH

„Við ætluðum bara að hætta við ferðina en börnin voru búin að fá frí í skólanum og þau hafa aldrei ferðast með flugvél áður," sagði Anna-Lena Modigh farþegi Iceland Express sem hefur beðið í sólarhring eftir flugi frá Kastrup til Íslands.

Anna-Lena er á leið í vikuferð til Íslands með eiginmanni sínum og tveimur börum sem eru 8 og 11 ára. 

Anna-Lena segir að ferðin hafi gengið vel að heiman frá Suður Svíþjóð og að þau hafi verið komin um borð í vélina þegar þeim var tilkynnt um olíuleka sem þyrfti að athuga.

„Við biðum í einn og hálfan tíma um borð í loftlausri vélinni," sagði Anna-Lena og síðan þurftu þau að bíða á flugvellinum til hálf sjö og þá voru þau send á hótel í Kaupmannahöfn og sagt að koma aftur klukkan tvö um nóttina þar sem vélin átti að fara klukkan fjögur í nótt sem leið.

Viðgerðin hefur tekið lengri tíma en áætlað var og nú segir Anna-Lena að búið sé að lofa þeim að þau fari með annarri vél sem á að fara klukkan eitt að dönskum tíma.

 „Það er ár síðan við byrjuðum að skipuleggja þessa ferð og við keyptum miðana fyrir hálfu ári síðan. Hér er fólk sem hefur misst af margra daga hestaferð á Íslandi og aðrir eru að fara í brúðkaup og margir hafa gefist upp á biðinni og hætt við eða hafa keypt sér miða með öðrum flugfélögum," sagði Anna-Lena sem sagðist ekki hafa sofið mikið og væri orðin mjög þreytt og slæpt.

Að lokum sagði Anna-Lena að þetta væri slæm landkynning fyrir Ísland og að hún teldi að fyrstu dagarnir þar myndu fara í  það að jafna sig á þessum hremmingum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert