Spyrjast fyrir um laxveiðiferð

Veitt í Miðfjarðará.
Veitt í Miðfjarðará.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar og VG lögðu fram fyrirspurn á fundi borgarráðs í dag um ferð, sem farin var fyrir ári í Miðfjarðará. Vilja borgarfulltrúarnir m.a. vita hvort borgarstjóri hafi látið kanna málavexti niður í kjölinn og hvernig brugðist verði við því, að hugsanlega varði málið við samþykktar reglur Reykjavíkurborgar.

Í fyrirspurninni segr, að allir helstu fjölmiðlar landsins hafi undanfarið birt fréttir af því að fyrir ári hafi þáverandi borgarstjóri, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Björn Ingi Hrafnsson, þáverandi formaður borgarráðs þegið veiðiferð í Miðfjarðará, eina dýrustu laxveiðiá landsins. Félagi þeirra í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og stjórnarformaður þess fyrirtækis, Haukur Leósson var með í för sem og fráfarandi stjórnarformaður OR, Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra.

„Af fréttum fjölmiðla má ráða að Miðfjarðará var á þessum tíma leigð af fyrirtækinu Baugi og voru fulltrúar fyrirtækisins, þmt fjármálastjóri þess viðstaddir. Fréttir af skiptingu kostnaðar hafa verið ögn óljósar en veiðin virðist ýmist hafa verið í boði Baugs eða með mjög miklum afslætti frá uppsettu verði. Það getur varðað við reglur Reykjavíkurborgar um skyldur æðstu stjórnenda auk innkaupareglna Reykjavíkurborgar og Orkuveitu Reykjavíkur.
 
Borgarstjóri hefur lýst því yfir að óeðlilegt sé borgarstjóri þiggi boð af þessu tagi af hendi fyrirtækja. Því er spurt hvort borgarstjóri hafi látið kanna málavexti ofangreinds máls í kjölinn og hvernig borgarstjóri hyggst bregðast við því að hugsanlega varði það við samþykktar reglur Reykjavíkurborgar," segir í fyrirspurn borgarfulltrúanna, sem svarað verður á borgarráðsfundi eftir viku. 

_______________________________________________________________________________________________

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert