Aðstæður og mengunarhætta metin í Hvammsvík

mbl.is/Frikki

Gamla varðskipið Þór rak upp á sker skammt frá Hvammsvík í morgun. Skipið er þar vegna töku á kvikmyndinni Reykjavik Whale Watching Massacre sem nú standa yfir. Fulltrúi Umhverfisstofnunar er á staðnum til að meta aðstæður og mengunarhættu.

Jafnframt er unnið að söfnun upplýsinga um skipið, hvort og þá hversu mikil olía er um borð, og einnig hvaða viðkvæm svæði gætu verið í hættu.

Að sögn fulltrúa Umhverfisstofnunar stendur skipið þokkalega og rétt. Vonast er til að svo verði áfram.

Umhverfisstofnun ber ábyrgð á að brugðist sé við bráðamengun og annast stjórn á vettvangi.

Samkvæmt lögum nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda, ber eiganda skipsins, eða umráðamann þess, að greiða fyrir aðgerðir vegna bráðamengunar, eða aðgerðir til að koma í veg fyrir bráðamengun.
 
Samkvæmt sömu lögum er heimilt að fela mengunarvaldinum sjálfum framkvæmd hreinsunar. Í slíkum tilvikum verður mengunarvaldurinn að leggja fram áætlun um hvernig hann muni standa að hreinsuninni. Mengunarvaldi ber að bregðast strax við og koma í veg fyrir frekari mengun.

Að lokum er rétt að hafa í huga að eiganda ber að fjarlægja skip, palla eða önnur mannvirki á sjó sem stranda og eigi síðar en sex mánuðum eftir strand, segir í tilkynningu frá Umhverfisstofnun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert