Blaðberar Morgunblaðsins komu í veg fyrir stórtjón

Vestmannaeyjar.
Vestmannaeyjar. mbl.is/Brynjar Gauti

Slökkvilið Vestmannaeyja var kallað út í gærmorgun að einbýlishúsi við Höfðaveg. Tilkynnt hafði verið að reykur kæmi út um glugga í kjallara hússins. Blaðburðarfólk Morgunblaðsins tilkynnti reykinn og gerði gott betur því Sigurður Guðmundsson blaðberi fór inn í húsið og bar brennandi pott út úr því til að forðast frekari skemmdir.

Sigurður ber út í hverfinu ásamt unnustu sinni, Sigrúnu Sigmarsdóttur. Hún segist hafa orðið vör við reykinn áður en þau komu að húsinu. „Ég var að klára húsin hérna ofar í götunni þegar ég sá reykinn og fór að kanna málið. Þá mættumst við Siggi enda hafði hann líka séð reykinn og við hringdum strax í Neyðarlínuna.“

Sigurður segist hafa reynt að opna dyrnar en þær voru læstar. „Ég vissi að það væru framkvæmdir við húsið og þegar ég sá reykinn datt mér fyrst í hug að það væri verið að saga eitthvað við húsið. En þegar ég kom að húsinu sá ég að þetta var eitthvað alvarlegra og í því kemur dóttir húseigandans og opnar dyrnar fyrir mig. Ég sá pottinn, reif eldahelluna úr sambandi og fór með logandi pottinn út,“ sagði Sigurður en lögreglan kom og slökkti í pottinum áður en slökkviliðið kom og reykræsti húsið.

Litlar skemmdir urðu á húsinu, aðallega reykskemmdir í kjallaranum, en eigandi hússins, Eyjólfur Guðjónsson, var blaðberunum þakklátur. Eyjólfur hefur verið áskrifandi Morgunblaðsins í fjölmörg ár og þótt ekki hafi staðið til að breyta því segist hann ekki ætla að segja upp áskriftinni eftir þetta.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert