Það sem af er þessu ári hafa 32 löggiltir fasteignasalar skilað inn leyfum sínum til sýslumannsins í Hafnarfirði, sem gefur leyfin út.
Ætla mætti að helsta ástæðan sé samdráttur í fasteignasölu en svo er ekki, að sögn talsmanna Félags fasteignasala. Segja þeir aðalástæðuna þá að löggiltir fasteignasalar sjái ekki ástæðu til þess að greiða 100 þúsund krónur á ári hver í eftirlitsgjald þegar sumar fasteignasölur komist upp með að hafa aðeins einn löggiltan fasteignasala en allt að 40 ófaglærða sölufulltrúa.
Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala, segir að lögum samkvæmt eigi löggiltir fasteignasalar að annast fasteignasölu, enda sé í flestum tilfellum um að ræða stærstu viðskipti sem einstaklingar geri á lífsleiðinni. Stórar og öflugar fasteignasölur hafi kosið að hafa 10-12 löggilta fasteignasala saman í vinnu. Þessar fasteignasölur séu að borga meira en milljón á ári til eftirlitsnefndar með fasteignasölum. Stofur með einum löggiltum fasteignasala og kannski 20–30 sölufulltrúum séu að borga 100 þúsund krónur á ári. Stóru stofurnar séu því í raun að borga fyrir eftirlitið með hinum stofunum.
Dæmi séu um að fasteignasölur hafi haft 20–30 sölumenn sem starfa mjög sjálfstætt og þetta fólk borgi háar fjárhæðir mánaðarlega fyrir að fá að vinna við fasteignasölu. Einn löggiltur fasteignasali hafi svo eftirlit með öllum viðskiptunum og því sem fram fer milli sölumannanna og neytendanna. Það segi sig sjálft, að hann geti ekki með nokkrum hætti haft yfirsýn yfir allt sem gerist.