Töluvert hefur verið um innbrot á heimili og í bíla í Seljahverfi í Breiðholti í Reykjavík undafarna daga. Í dag var þar brotist inn í bíl og stolið úr honum verkfærum og myndavél. Var afturrúða bílsins brotin. Að minnsta kosti sjö innbrot hafa verið framin í hverfinu undanfarna þrjá sólarhringa.
Að sögn lögreglunnar hafa flest innbrotin verið framin yfir hádaginn, þegar fólk er ekki heima. Öll eru þessi mál í rannsókn.
Lögreglan beinir þeim tilmælum til fólks að vera á varðbergi og hafa helst krækjur á öllum opnanlegum gluggum, því að stormjárn dugi skammt í þessum efnum.