Ungur Íslendingur hefur verið hnepptur í varðhald í Kína þar sem landvistarleyfi hans var útrunnið. Utanríkisráðuneytið segir að reynt sé eftir megni að aðstoða manninn, og hefur fulltrúi þess hitt hann. Kínversk stjórnvöld vilja senda manninn úr landi.
Að sögn Urðar Gunnarsdóttur, fjölmiðlafulltrúa utanríkisráðuneytisins, eru góðar líkur á að maðurinn verði leystur úr varðhaldinu á næstu dögum. Fulltrúi ráðuneytisins segir aðbúnaðinn þar sem maðurinn er í varðhaldi í borginni Guangzhou vera þolanlegan.