Olíuverzlun Íslands gagnrýnir stjórnvöld

mbl.is/Arnaldur

Olíuverzlun Íslands segir aðgerðarleysi stjórnvalda m.a. vera ástæðu fyrir því að að rekstrarskilyrði fyrir fjármagnsfrekan rekstur eins og sölu og dreifingu á olíuvörum séu þau verstu hér á landi í allri Evrópu, og þótt víðar væri leitað.

„Vegna frétta um að Viðskiptaráðherra hafi óskað eftir því við Samkeppniseftirlit og Neytendastofu að þróun eldsneytisverðs verði könnuð hér á landi vill Olíuverzlun Íslands benda á þá staðreynd að meðal annars vegna aðgerðaleysis stjórnvalda þá eru rekstrarskilyrði fyrir fjármagnsfrekan rekstur eins og sölu og dreifingu á olíuvörum þau verstu hér á landi í allri Evrópu og þótt víðar væri leitað.“ segir í tilkynningu frá olíufélaginu.

Fram kemur að gengisfall krónunnar um ríflega 30% og vaxtastig sem nálgist  20% hafi margfaldað fjármagnskostnað félagsins.  Þessi kostnaðarauki mælist í slíkum stærðum að enginn atvinnurekstur geti staðið undir slíku án þess að það fari út í verðlag. 

„Hækkun eldsneytisverðs á heimsmarkaði hefur magnað þessi áhrif enn frekar með stækkun efnahagsreiknings, aukningu skulda og hækkun dreifingarkostnaðar.  Það liggur fyrir að ríkið tekur tæpar 75 krónur í sinn hlut af hverjum seldum lítra á sama tíma og aukinn rekstrarkostnaður hefur étið upp hlutdeild félagsins í eldsneytisverði.“ 

Félagið segir það vera verðugt verkefni fyrir stjórnmálamenn að ná böndum á verðbólgu og vaxtastigi í landinu, en það verði ekki gert með því að ráðast með ómaklegum hætti að einstaka atvinnugreinum. Olíuverzlun Íslands hafi nú þegar veitt umboðsmanni neytenda allar þær upplýsingar um olíumarkaðinn sem hann hafi óskað eftir. 

„Samkvæmt lögum er verðlagning í landinu frjáls, en verðlagning á olíuvörum verður að endurspegla raunkostnað á hverjum tíma.  Algengt sjálfsafgreiðsluverð á bensíni hjá Olíuverzlun Íslands er nú 165,7 kr/ltr, en á sama tíma kostar bensínlíterinn í Danmörku 181 krónu, í Noregi kostar bensínlíterinn 207 krónur, í Bretlandi kostar bensínlíterinn 175 krónur og í Þýskalandi kostar bensínlíterinn 180 krónur.  Olíuverzlun Íslands mun hér eftir sem hingað til leggja sig fram um að veita viðskiptavinum afburða þjónustu og samkeppnishæft verð,“ segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert