„Við hörmum þessa stöðu og við munum axla fulla ábyrgð,“ segir Gestur Pétursson, stjórnarformaður Heilsuverndarstöðvarinnar ehf. 24 stundir sögðu frá því í gær að fyrirtækið hefði staðið illa í skilum á lífeyrissjóðsgreiðslum, félags- gjöldum og öðrum launatengdum gjöldum sem dregin höfðu verið af launum starfsmanna þess.
„Við munum ganga frá samningum í dag sem tryggja endurfjármögnun hjá fyrirtækinu. Þar með munu koma peningar inn í félagið til þess að greiða þessar skuldir og það munum við gera sem fyrst,“ segir Gestur. Hann segir lífeyrisgreiðslur Ragnheiðar Eiríksdóttur, sem 24 stundir ræddu við í gær, hafa verið gerðar upp fyrir nokkru.
Gestur segir greiðsluvanda fyrirtækisins hafa byrjað um það leyti sem fjármálakreppan var að skella á auk þess sem verkefni sem skila áttu tekjum hófust seinna en gert hafði verið ráð fyrir.„Til dæmis var einn stór samningur sem átti að hefjast í janúar á þessu ári en hófst ekki fyrr en í lok mars og annar sem átti að byrja í febrúar en byrjaði ekki fyrr en í maí,“ segir Gestur til útskýringar og bætir við: „Á sama tíma vorum við með fullmannað starfslið án þess að vera með tekjur á móti.“ Þá segir Gestur að endurbætur á gömlu Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg hafi hafi verið kostnaðarsamar.