„Þessum hlutum hefur ekki miðað nægilega hratt og við þurfum að gera betur,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri um frístundastarf skólabarna í borginni eftir að hefðbundnum skóladegi lýkur.
„Minna skutl“ með börnin var meðal þess sem flokkarnir sem mynda meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur höfðu á stefnuskrá sinni fyrir síðustu kosningar. Stefnt skyldi að því að fella í meira mæli saman skólastarf og tómstundastarf. Í dag er staðan sú að 1.700 börn bíða eftir plássi á frístundaheimili.
Hanna Birna segir að mönnun heimilanna sé lykilþáttur í að hægt sé að bjóða þeim sem það kjósa upp á frístundastarf fyrir börnin í heimahverfi. Hún segir ljóst að leita þurfi fleiri leiða en að auglýsa til þess að fjölga starfsmönnum frístundaheimilanna.
Hún hefur boðað sviðsstjóra leikskólasviðs, menntasviðs og ÍTR á sinn fund snemma í næstu viku, þar sem nýjar leiðir verða ræddar. „Ein leiðin getur verið sú að skoða möguleika á aukinni samnýtingu eða fá aðra aðila til samstarfs,“ segir borgarstjóri.