Í dag var tekið tilboði Mark-Húsa ehf. í byggingu 44 rýma hjúkrunarheimilis við Boðaþing í Kópavogi. Mark-Hús áttu lægsta tilboðið, 634 milljónir króna. Áætlað er að hjúkrunarheimilið verði tekið í notkun í desember á næsta ári, að því er segir í tilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu.
Framkvæmdir standa yfir við byggingu 110 rýma hjúkrunarheimilis við Suðurlandsbraut í Reykjavík og lýkur verkinu í febrúar 2010.
Í Ólafsvík er langt komin hönnunarvinna vegna viðbyggingar og endurbóta á hjúkrunarheimilinu Jaðri og verður verkið boðið út í nóvember. Öllum fjölbýlum verður eytt og bætt við tveimur nýjum hjúkrunarrýmum.Stefnt er að því að ljúka framkvæmdum fyrri hluta ársins 2010.
Í samræmi við áætlun ráðuneytisins verða á næstu mánuðum gerðar frumathuganir og sinnt öðrum undirbúningi vegna fyrirhugaðra framkvæmda í Hafnarfirði, Mosfellsbæ, Reykjanesbæ, Borgarbyggð, Seltjarnarnesi og Garðabæ, en þetta eru þau sveitarfélög þar sem framkvæmdir fara fyrst af stað samkvæmt áætluninni.
Samtals verður komið á fót 222 hjúkrunarrýmum í þessum sveitarfélögum, af þeim verða 120 viðbót til fjölgunar hjúkrunarýmum en 102 verða nýtt til að fækka fjölbýlum á hjúkrunarheimilum.
Að meðtöldum þeim framkvæmdum sem þegar eru hafnar verður á þessu ári unnið að framkvæmdum og undirbúningi vegna uppbyggingar 388 rýma. Af þeim verða 276 rými viðbót til fjölgunar hjúkrunarrýmum á landinu en 112 nýtast til að fækka fjölbýlum, samkvæmt tilkynningu.