Landsvirkjun varar við því að mögulegt er að fylla losni úr vegg Hafrahvammsgljúfurs á móts við Kárahnjúkafoss. Segir í tilkynningu að mannvirki eru í engri hættu þótt bergfyllan falli, en mikilvægt er að ferðamenn virði umferðarbann sem verið hefur í gildi á vinnusvæði neðan Kárahnjúkastíflu.
„Eftir að Hálslón fylltist síðsumars fer vatn um yfirfall ofan í Hafrahvammagljúfur og fellur um 90 m háan foss af vesturbrún gljúfursins. Gljúfurveggurinn á móti fossinum er mjög sprunginn og er þar sprunga sem liggur samsíða gljúfurveggnum á nokkrum kafla. Þessi sprunga hefur verið skoðuð m.a. með borunum og fylgst hefur verið með breidd hennar með þar til gerðum mælum.
Engin hreyfing var á sprungunni en þegar fossinn fór að falla í gljúfrið nú í ágúst varð strax vart við hreyfingu sprungunni. Nú er svo komið að sprungan hefur víkkað um 2 mm frá því að fossinn fór að falla í gljúfrið. Það er því hugsanlegt að bergfyllan framan við sprunguna geti fallið í gljúfrið," að því er segir í tilkynningu frá Landsvirkjun.