Sífellt fleiri Pólverjar leita nú á pólsku ræðismannsskrifstofuna á Íslandi eftir ráðleggingum og oftar en ekki aðstoð við að komast aftur heim til Póllands. Michal Sikorski ræðismaður segir að síðustu tvo mánuði hafi málum sem koma inn á borð til hans fjölgað gríðarlega.
Mikill meirihluti þeirra Pólverja sem hingað hafa komið síðustu ár er hér aðeins tímabundið til þess að vinna. Sikorski segir marga þeirra á heimleið nú fyrr en þeir höfðu áætlað vegna breytinga á vinnumarkaði. Þá hafi jafnvel Pólverjar sem fest hafi rætur á Íslandi ákveðið að snúa aftur heim í ljósi breyttra aðstæðna.