Nýtt fiskveiðiár mörgum erfitt

Reuters

Viðskipti með kvóta hafa verið mjög lítil á því fiskveiðiári sem nú er að ljúka og verð hefur lækkað. Á það einkum við um varanlegar aflaheimildir, hvort sem það er í stóra eða  smáa kerfinu. Viðmælendur Morgunblaðsins í sjávarútvegi segja að þau litlu viðskipti sem eigi sér stað séu stunduð af bönkunum, sem séu að færa til skuldir á milli viðskiptavina sinna. Bankarnir hafi verið tregir til að lána fyrir viðskiptum með kvóta. Ekki er talið að þetta ástand muni eitthvað lagast á því fiskveiðiári sem gengur í garð á mánudag.

Verð á leigukvóta hefur hins vegar verið að hækka og viðskiptin eitthvað líflegri þó að þau séu langtum minni en áður tíðkaðist.

Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, gengur svo langt að segja að komandi fiskveiðiár verði smábátasjómönnum afar erfitt. Nú muni menn í fyrsta sinn finna verulega fyrir þeim kvótaskerðingum sem hafa átt sér stað. 

„Menn gátu aðeins deyft höggið með því að flytja aflaheimildir yfir á þetta fiskveiðiár, sem er að verða búið, en möguleikar til þess núna eru hverfandi. Ég óttast að fyrir marga eigi komandi fiskveiðiár eftir að verða mjög erfitt, og þarnæsta líka ef halda á þessari dauðans vitleysu áfram að halda þorskinum svona niðri,“ segir Arthur og telur hætt við að einhverjir neyðist jafnvel til að selja kvóta eða að bankar taki yfir báta þeirra og selji áfram.

„Menn eru lamaðir yfir því hvað bankarnir hafa verið tregir til að lána fyrir kvóta,“ segir hann.

Að sögn Reynis Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra Kvótamarkaðarins, er ekki farið að bera mikið á gjaldþrotum í sjávarútvegi þó að einhverjir séu kannski að lenda í greiðsluvandræðum. Hann segir að hið sérstaka hafi gerst á fiskveiðiárinu, sem nú sé að ljúka, að seljandinn hafi tekið alla skerðinguna á sig. Aflaheimildir í þorski hafi verið skertar um 33% og verðið hafi lækkað sem því nemur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert