Á Akureyrarvöku í kvöld verður íslenska landsliðið í handknattleik heiðrað fyrir framgöngu sína í Peking og þá sérstaklega þeir fjórir liðsmenn sem alið hafa aldur sinn um lengri eða skemmri tíma hjá handknattleiksdeild KA. Þeir eru Arnór Atlason, Guðjón Valur Sigurðsson, Hreiðar Levi Guðmundsson og Sverre Jakobsson.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Akureyrarstofu í morgun.
Allir fá þeir viðurkenningarskildi frá Akureyringum fyrir ómetanlegt framlag sitt til handknattleiksíþróttarinnar og fyrir þau jákvæðu áhrif sem þeir hafa haft á akureyrska íþróttaæsku. Sverre Jakobsson veitir viðurkenningunni viðtöku fyrir hönd fjórmenninganna og fer athöfnin fram í Listagilinu á Akureyri laust fyrir klukkan níu í kvöld.