Auknar fjárveitingar og væntanleg ný rannsóknarstofa eru að breyta landslaginu í hjartaþræðingum á Landspítalanum. Um 200 manns voru á biðlista fyrir rúmu ári og lengdist biðlistinn þegar líða tók á árið. Þegar mest var biðu um 250 manns eftir hjartaþræðingu. Sá listi hefur styst mikið á undanförnum mánuðum og kemur til með að styttast enn frekar á þeim komandi.
„Okkur hefur tekist að setja í þetta kraft. Það voru settir svo litlir fjármunir í að vinna lengur á daginn og meira um helgar en einnig til að taka bráðatilvikin hraðar í gegn. Það hefur gert okkur kleift að kalla fleiri inn og nú er um við komin niður í um 170 sjúklinga á biðlista,“ segir Guðmundur Þorgeirsson, sviðsstjóri lækninga á lyflækningasviði.
Afköstin hafa aukist verulega á undanförnum mánuðum og enn er útlit fyrir að hægt sé að gera betur. „Við erum með tvær rannsóknarstofur og það hefur verið einn flöskuháls. Nú er verið að setja upp þriðju rannsóknarstofuna. Búið er að kaupa tækin og verið að breyta húsnæðinu.“