Alþjóðlegum fundi landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans lauk á Selfossi síðdegis dag. Um 60 fulltrúar frá 25 landsfélögum og forystumenn Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans sóttu fundinn til að ræða málefni sem brenna heitast á Rauða kross hreyfingunni, og samhæfa mannúðaraðgerðir sínar.
„Mikilvægi þess að tala fyrir verkefnum Rauða krossins gagnvart stjórnvöldum og alþjóðasamfálaginu var rætt ítarlega á þessum fundi. Hreyfingin öll þarf að tala einum rómi.” sagði Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands, í tilkynningu.
„Þessi fundur er mikilvægur hluti af því starfi.” Nýbreytni í samvinnu landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans var eitt megin málefni fundarins. Gott dæmi um það er samvinna Rauða hálfmánans í Jórdaníu og Magen David Adom, Rauðu Davíðsstjörnunnar, í Ísrael.
Landsfélögin hafa sameiginlega tekið upp ungmennaskipti háskólanema og sjálfboðaliða til að auka skilning þeirra á aðstæðum hvers annars og leggja frekari grunn að friðarferli í Miðausturlöndum, að því er segir í tilkynningu.
„Með þessu verkefni eyðum við fordómum, byggjum brýr og breytum hugarfari sem getur haft áhrif til friðar á svæðinu,” sagði Mohammad Al-Hadid, formaður Rauða hálfmánans í Jórdaníu á fundinum.
Rauði krossinn í Hollandi og Rauði hálfmáninn í Tyrklandi kynntu einnig nýtt samvinnuverkefni þar sem landsfélögin vinna saman að því að ná til tyrkneskra innflytjenda í Hollandi og fá þá til að ganga til liðs við Rauða krossinn eða nýta sér þá þjónustu sem þar er í boði.