Bjartsýnir á að heitt vatn finnist í Tungudal

Ísafjörður
Ísafjörður mbl.is/Kjartan P. Sig

Verulegar líkur eru taldar á því að 60-70°C heitt vatn finnist í Tungudal í Skutulsfirði. Boruð verður djúp vinnsluhola í mánuðinum og ættu niðurstöður að liggja fyrir í nóvember. Orkubú Vestfjarða fékk nýverið 102 milljóna króna lánveitingu úr Orkusjóði, sem er hæsta upphæð sem veitt verið úr sjóðnum í eitt verkefni.

Áður hefur verið leitað að heitu vatni á Vestfjörðum en ávallt án árangurs. Á áttunda áratug síðustu aldar voru boraðar tvær djúpar holur og með þeim var staðfest að hita væri þar að finna. Ekkert vatn fékkst þó. Á árunum 1997-98 fór Orkubú Vestfjarða einnig í mikla jarðhitaleit. Gerð var rannsókn í öllum firðinum og 29 grunnar jarðhitaholur boraðar. „Í framhaldi af því var staðsett borhola, sem átti ekki að geta klikkað. Við boruðum niður á 1.260 metra dýpi en því miður fannst ekki vatn. En nú munum við beita nýrri aðferð,“ segir Kristján Haraldsson orkubússtjóri.

Aðferðin sem um ræðir nefnist stefnuborun. Borað verður niður á 800 metra dýpi og bornum því næst beygt í átt að sprungu sem talið er að þar leynist. Bjartsýni ríkir með verkefnið, en það er vissulega áhættuverkefni. Kristján telur þó líkurnar á að finna vatn meiri en minni.

„Ég tel áhættuna sem fylgir því að veita þetta lán ekki meiri en svo að þetta sé vel verjanlegt. Það er hiti í jörðu í Tungudal og það er komin ný tækni við borun. Við teljum auk þess mjög jákvætt að örva Ísfirðinga til að reyna ná upp vatni sem verður til að auka lífsgæði þeirra sem munu njóta afrakstursins.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert