Icelandair hefur sagt sextán flugmönnum til viðbótar upp störfum. Á annað hundrað flugmenn flugfélagsins hafa því misst vinnuna á árinu. Síðast voru tilkynntar uppsagnir átta flugmanna í síðustu viku. Frekari uppsagnir eru ekki fyrirhugaðar, að sögn upplýsingafulltrúa Icelandair.
„Þetta kom upp [á föstudag]. Það voru gerðar ákveðnar skattalagabreytingar í Venesúela sem gerðu það að verkum að forsendur leiguflugssamnings þar gjörbreyttust. Venesúelska flugfélagið Santa Bárbara sem samningurinn var við sagði honum því upp. Samningurinn átti að renna sitt skeið á enda í vor en lýkur þess í stað í vetur,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.
Um var að ræða rekstur á Boeing 767-flugvél sem aðallega var flogið á milli Madríd á Spáni og Caracas í Venesúela.
Hjá Icelandair störfuðu tæplega þrjú hundruð flugmenn síðasta vetur en verða tæplega tvö hundruð í vetur. Á árinu hefur 112 flugmönnum verið sagt upp störfum, flestum eða 88 í júní sl. andri@mbl.is