Hækkun á gjaldskrá mötuneyta

Gjaldskrá skólamötuneyta á Akureyri hækkar um 3,65%. Sífellt fleiri nýta sér mötuneytin. Yngstu nemendurnir nýta sér þjónustuna mest en elstu minnst. Milli 70 og 80 prósent nemenda borða í skólamötuneyti.

Vikudagur skýrir frá því að meirihluti skólanefndar Akureyrar hafi samþykkt á fundi sínum nýlega tillögu um að gjaldskrá skólamötuneyta hækki um 3,65%. Verð fyrir máltíð í annaráskrift hækkar þannig um 10 krónur og verður 284 krónur og verð fyrir stakar máltíðir hækkar um 14 krónur og verður 384 krónur.

Gunnar Gíslason fræðslustjóri á Akureyri sagði þessi hækkun væri til komin vegna hækkunar á vöruverði.

„Það er verið að reyna að halda þessari hækkun í lágmarki en við eigum að reka mötuneytin á núlli. Við það er verið að rembast en það er ekki einfalt mál.“

Gunnar sagði að nýtingin í mötuneytum grunnskólanna hafi verið að aukast mjög mikið.

„Við höfum verið að sjá 70-80% nýtingu og þá á ég við það að þetta hlutfall nemenda hefur verið kaupa sér máltíð á hverjum degi.“

Gunnar sagði nýtingarhlutfallið mjög mismunandi, það væri lang mest hjá yngstu krökkunum en að það hafi aftur reynst erfitt að fá unglingana til að nýta sér mötuneyti skólanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert