Nýskráningar bíla ekki færri í sex ár

Nýskráningar bíla í ágústmánuði voru aðeins 598 talsins samkvæmt tölum frá Umferðastofu en leita þarf aftur til ársins 2002 til að finna jafn fáar nýskráninga í einum mánuði. Til samanburðar voru 805 nýskráningar í júlí.

Fram kemur í Vegvísi Landsbankans, að ef tölurnar eru árstíðaleiðréttar sé samdrátturinn milli mánaða ekki jafn mikill eða um 3,6% milli mánaða. Munurinn sé öllu meiri í samanburði við ágúst í fyrra en fækkun nýskráninga bifreiða milli ára er rúmlega 70% og hefur ekki mælst svo mikil á því tímabili sem gögn ná til, en það er allt aftur til ársins 1995.

Alls hafa verið tæplega 11.100 nýskráningar það sem af er ári miðað við um 15.700 á sama tímabili í fyrra og er samdrátturinn milli ára um 30%.

Greining Landsbankans segir, að búast megi við að sala á nýjum bílum verði áfram lítil á næstu mánuðum og að samdráttur mælist í einkaneyslu á yfirstandandi ársfjórðungi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert