Samfylkingin með mest fylgi

Samfylkingin er með mest fylgi stjórnmálaflokka um þessar mundir samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup. Rúmlega 33% sögðust myndu kjósa flokkinn, yrði kosið nú, en rúmlega 32% sögðust myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Fylgi Samfylkingar hefur aukist um rúmar 4 prósentur frá því fyrir mánuði en fylgi Sjálfstæðisflokks er það sama.

Fylgi VG mælist nú 19% en var 22% í síðustu mælingu Gallup. Fylgi Framsóknarflokks mælist 10%, var 9% fyrir mánuði. Fylgi Frjálslynda flokksins mælist 4%, var 5% og fylgi Íslandshreyfingarinnar mælist 2% eins og síðast.

Nú segjast 54% styðja ríkisstjórnina en helmingur sagðist styðja stjórnina fyrir mánuði.

Einnig var spurt um viðhorf til nýs meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. 56% sögðust vera óánægð en þriðjungur sagðist ánægður; 10% sögðust hvorki ánægð né óánægð. 37% svarenda í Reykjavík sögðust ánægð með Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, nýjan borgarstjóra samanborið við ríflega 34%sem segjast óánægð. Rúmlega fjórðungur svarenda í Reykjavík er hvorki ánægður né óánægður.

Þegar horft er til landsins alls kom í ljós að rúmlega 38% sögðust ánægð og tæplega 29% óánægð með nýja borgarstjórann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka