Skiptar skoðanir um ákvörðun Þórunnar

Bakki við Húsavík þar sem fyrirhugað álver á að rísa.
Bakki við Húsavík þar sem fyrirhugað álver á að rísa.

Álíka margir eru ánægðir og óánægðir með þá ákvörðun Þórunnar Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra, að gera þurfi heildstætt mat á fyrirhuguðum álversframkvæmdum á Bakka við Húsavík.

Samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup nær 42% aðspurðra ánægð með  ákvörðun Þórunnar en rúmlega 41% óánægð. Næstum 75% kjósenda Vinstri grænna eru ánægð með ákvörðun umhverfisráðherra og rösklega 57% kjósenda  Samfylkingarinnar, flokks Þórunnar, segjast ánægð. Nánast 22% kjósenda Sjálfstæðisflokks, samstarfsflokks Samfylkingarinnar í ríkisstjórn, segjast ánægð með ákvörðunina og 62% eru henni andvíg.

Minnstur er stuðningurinn meðal kjósenda Framsóknarflokks þar sem naumlega 5% eru ánægð samanborið við nánast 89% sem eru óánægð með ákvörðun umhverfisráðherra.

Þegar spurt var um afstöðu fólks til uppbyggingar iðnaðar sem þarfnast mikillar orku hér á landi kom í ljós að um 54% landsmanna eru hlynnt slíkri uppbyggingu en liðlega 28% eru henni andvíg. Stuðningurinn er töluvert meiri á meðal íbúa landsbyggðarinnar en í höfuðborginni en 59% landsbyggðarfólks eru hlynnt slíkri
uppbyggingu samanborið við rúmlega 49% Reykvíkinga.

Stuðningurinn er mestur meðal kjósenda Sjálfstæðisflokks, ríflega 83%, en litlu minni meðal kjósenda Framsóknarflokks. Minnstur stuðningur er meðal kjósenda Vinstri grænna, tæplega 19%, og næstum 44% meðal kjósenda Samfylkingar.

Skiptar skoðanir eru meðal landsmanna um frekari uppbyggingu álvera hér á landi en næstum 38% landsmanna eru hlynnt frekari uppbyggingu álvera en tæplega  42% segjast andvíg. Landsmenn virðast þó sammála um að uppbygging netþjónabúa eða gagnavera sé eftirsóknarverð, en nálægt 85% landsmanna segjast hlynnt slíkri uppbyggingu en aðeins rúm 2% eru henni andvíg.

Landsmenn eru  jafnframt mjög jákvæðir gagnvart útrás íslenskra orkufyrirtækja, en liðlega 67% landsmanna segjast jákvæðir gagnvart henni en aðeins
rúmlega 9% segjast neikvæð gagnvart útrásinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert