Ljósmæður eru ekki bjartsýnar á að lausn finnist í kjaradeilu þeirra við ríkið áður en verkfall skellur á á miðnætti á miðvikudag. Guðlaug Einarsdóttir formaður Ljósmæðrafélags Íslands segir ljóst að slíkt verkfall muni koma hart niður enda veiti ljósmæður nauðsynlega þjónustu.
Samninganefnd ljósmæðra hitti samninganefnd ríkisins á fundi sem hófst hjá Ríkissáttasemjara klukkan tvö. Honum lauk án árangurs um klukkustund síðar. Guðlaug segir enn bera mikið í milli og langt frá því að neitt hafi verið boðið sem ljósmæður geti sætt sig við. Það sé ljóst að þær standi fast á kröfum sínum enda séu þær að bjarga heilbrigðiskerfinu frá miklu stærri vanda síðar, það er manneklu í ljósmæðrastétt.