30 milljarða króna lán

Verið er að ganga frá nýju gjaldeyrisláni að að fjárhæð a.m.k. 250 milljónir evra, jafnvirði rúmlega 30 milljarða króna, á kjörum sem eru mun hagstæðari en svokallað skuldatryggingarálag á ríkissjóð gefur til kynna. Þetta kom fram hjá Geir H. Haarde, forsætisráðherra, þegar hann flutti Alþingi skýrslu um efnahagsmál í dag.

Geir sagði, að þetta sýndi enn á ný hve skuldatryggingaálög á alþjóðlega fjármálamarkaðnum geti verið fjarri raunveruleikanum.

Gjaldeyrisforðinn var rúmlega 100 milljarðar króna á sambærilegu gengi um mitt ár 2006 en eftir að nýja lánið hefur verið tekið nemur hann jafnvirði rúmlega 500 milljarða króna og hefur því fimmfaldast. Sagði Geir að gjaldeyrisforðinn væri nú  hlutfallslega mun meiri en í flestum nágrannalöndum ef miðað væri við landsframleiðslu.

„Það er eins og þeir sem nú tala mest um að auka þurfi gjaldeyrisforðann séu ekki alltaf með á nótunum," sagði Geir.

Fram kom einnig hjá Geir, að samist hefði um að Ísland verði aðili að samkomulagi Evrópusambandsþjóða um viðbrögð við fjármálakreppu til þess að auka fjármálastöðugleika á Evrópska efnahagssvæðinu.

Geir sagði, að á síðustu mánuðum hefðu mörg og markviss skref verið tekin til að sporna við áhrifum fjármálakreppunnar á íslenskt efnahagslíf. Þær aðgerðir, sem gripið hefði verið til og annað sem væri í athugun, miðuðu í fyrsta lagi að því að draga úr lausafjárerfiðleikum fjármálastofnana til skemmri tíma, í öðru lagi að því að auka fjármálalegan stöðugleika til frambúðar og í þriðja lagi að því langtímamarkmiði að skjótum traustum stoðum undir framtíðarhagvöxt og þar með bætt lífskjör í landinu.

„Ríkisstjórnin mun gera það sem í hennar valdi stendur til að taka á vandanum til skemmri tíma og auka stöðugleika í efnahagslífinu til lengri tíma. Fjárlagafrumvarpið og stefnuræða mín í byrjun október munu bera þess merki. Ríkisstjórnin hefur forðast innihaldslausar upphrópanir sem engu skila og eru síst til þess fallnar að treysta okkar trúverðugleika, inn á við sem út á við. Í efnahagslegu umróti eru yfirvegaðar aðgerðir mikilvægari en upphrópanir og úrtölur," sagði Geir H. Haarde.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert