Eðlileg starfsemi á fæðingadeild Landspítala

Mönnun á fæðingadeild Landspítala verður með eðlilegum hætti að sögn …
Mönnun á fæðingadeild Landspítala verður með eðlilegum hætti að sögn heilbrigðisráðuneytis. mbl.is/Árni Torfason

Heilbrigðisráðuneytið segir, að mönnun á fæðinga- og sængurlegudeild Landspítala verði með eðlilegum hætti komi til verkfallsaðgerða ljósmæðra og neyðarþjónusta veitt í heimabyggð svo sem lög kveða á um. Heilbrigðisstofnanir hafa lýst því yfir að þær muni sækja um undanþágu fyrir ljósmæður á fæðingardeild.

Ráðuneytið segir, að þetta sé samkvæmt áætlun Landspítala og annarra heilbrigðisstofnana, sem gerðar hafi verið vegna boðaðra aðgerða ljósmæðra í kjaradeilu þeirra við ríkið. Áætlun Landspítala og heilbrigðisstofnana miðast við að fæðingarhjálp sé sinnt í heimabyggð í samræmi við neyðaráætlanir og lög.

Haft er eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, heilbrigðisráðherra, að hann sé ekki úrkula vonar um að samninganefndum deiluaðilja takist það ætlunarverk sitt að ná samningum, og að mikilvægt sé fyrir allar stofnanir að tryggja neyðarþjónustu vegna fæðingarhjálpar í heimabyggð.

Bæði heilbrigðisstofnanirnar á Suðurnesjum og Suðurlandi hafa boðað að  sótt verði um  undanþágu fyrir ljósmæður á fæðingardeild áður en verkfall skellur á 4. og 5. september nk. þannig að hægt væri að veita lágmarksþjónustu  í samræmi við ákvæði um verkföll í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Þá mun landlæknir fylgjast með hinum faglegu þáttum komi til aðgerðanna en embætti hans hefur verið í nánu sambandi við stofnanir á undanförnum vikum og dögum svo og fagfélag ljósmæðra. Embættið mun fá afrit af neyðaráætlunum stofnana. Það mun einnig fylgjast með framgangi verkfallsins eftir að það hefst, m.a. með heimsóknum.

Að sögn landlæknis hefur komið skýrt fram í samræðum við stjórn Ljósmæðrafélagsins að ljósmæður gera sér mjög vel grein fyrir ábyrgð sinni og muni sinna neyðartilvikum.






mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka