Umferðin í ágúst 2008 er 3,48 prósentum minni en í ágúst 2007 þegar bornir eru saman 14 talningarstaðir um land allt. Í ágúst 2007 jókst hinsvegar umferðin um 7,81 prósent frá því í sama mánuði árið á undan eða árið 2006. Þetta er fimmti mánuðurinn í röð þar sem dregur úr umferð á milli ára en um langt skeið hefur umferð aukist stöðugt.
Þó dró örlítið minna úr umferð í ágúst en í mánuðina á undan þegar umferðin dróst saman um allt að 5,56 prósent (júní) frá sama mánuði árið á undan, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.
20,08% minni umferð um Öxnadalsheiði
Talningarstaðirnir 14 eru allir á Hringveginum. Mest hefur dregið úr umferð á Öxnadalsheiði eða um 20,08% á milli ágústmánaða og á Sandskeiði um 10,83%. Við Hvalsnes í Lóni nemur samdrátturinn 9,44%. Við Gljúfurá í Húnavatnssýslu minnkar umferðin um 4,26% og á Holtavörðuheiði um 5,73%. Eini staðurinn þar sem umferð jókst, af þeim fjórtán þar sem talningin fór fram, eru Mývatnsöræfi þar sem aukningin nemur 0,14% á milli ára.