Fékk styrk til að leysa út vélarnar

Ástþór Skúlason.
Ástþór Skúlason. mbl.is

Ólafur Magnússon, forstjóri Mjólku, hefur ákveðið að styrkja Ástþór Skúlason, lamaðan bónda á Barðaströnd, þannig að hann geti leyst út sérútbúnu landbúnaðarvélarnar sem hann var sviptur nú í ágúst vegna vanskila. Ólafur greiddi í gær 1.100 þúsund krónur inn á reikning Ástþórs.

„Sauðfjárbúskapur er nógu erfiður fyrir bændur sem eru á tveimur jafnfljótum, hvað þá fyrir bændur sem eiga við fötlun að stríða eins og Ástþór. Við þekkjum það af eigin raun að lífsbaráttan er stundum hörð og það er erfitt að skulda. Við höfum átt því láni að fagna að njóta velvildar lánardrottna og birgja við uppbyggingu á okkar fyrirtæki og höfum því fulla samúð með Ástþóri,“ segir Ólafur sem rann til rifja að lesa um erfiðleika Ástþórs í 24 stundum síðastliðinn laugardag, eins og fjölmörgum öðrum lesendum.

Þakklátur öllum fyrir stuðning

Í fréttinni greindi Ástþór frá því að um það bil viku áður en frestur hans til að greiða afborganir upp á 200 þúsund krónur, sem komnar voru í vanskil, og 600 þúsund króna virðisaukaskatt, sem hann sagði vegna einhvers klúðurs hafa lent á Lýsingu, hefðu starfsmenn vörslusviptingar fyrirtækisins komið fyrirvaralaust og sótt vinnuvélar hans sem voru með sérstökum búnaði svo að hann gæti ekið þeim.

Ástþór, sem er afar þakklátur fyrir fjárhagsstuðning Ólafs og annarra sem lýst hafa yfir vilja til að styrkja hann, tók það fram að þar sem fyrirtækið væri skráður meðeigandi að vélunum hefði það verið í fullum rétti til að sækja þær hvenær sem væri vegna vanskilanna.

Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri Mjólku.
Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri Mjólku. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka