„Pabbi bannaði krökkunum að eiga við beinin og brýndi fyrir okkur að taka þau ekki,“ segir Aðalheiður Ása Georgsdóttir í Miðhúsum í Breiðuvík á Snæfellsnesi. Á eyðibýlinu Hraunlöndum, sem tilheyrir landi jarðarinnar, sjást bein í rofabarði við sjóinn. Hluti beinanna er talinn af mönnum en það hefur ekki verið rannsakað.
Beinin sjást í barði í svonefndum Kirkjumel. Sæmundur Kristjánsson, svæðisleiðsögumaður á Rifi, segir að lengi hafi sést bein þarna og alltaf verið rætt um þau sem mannabein úr gömlum grafreit. Hann segir að þrátt fyrir örnefnið hafi engar skriflegar heimildir fundist um kirkju í Hraunlöndum. Býlið hafi alltaf átt sókn að Knarrarkirkju og greftrun þar.
Lengi hefur verið vitað um gamlar graftarleifar af mannabeinum í Hraunlöndum, þeirra er meðal annars getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Gísli Gestsson greinir frá því í fornleifaskýrslu frá 1952 að þar kunni að hafa staðið hinn forni kirkjustaður „Undir Hrauni“. Vitað er að bænhús var í Hraunlöndum á fimmtándu og fram á sextándu öld.