Á leið sinni frá Bangladess kom forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson við í Amman, höfuðborg Jórdaníu og þáði boð Abdullah II konungs um að koma til fundar við hann í höllinni. Konungurinn var fyrstur þjóðhöfðingja frá Mið-Austurlöndum til að koma í opinbera heimsókn til Íslands. Heimsóknin var árið 2000.
Á fundi forseta og konungs var fjallað um möguleika á nýtingu jarðhita í Jórdaníu en sérfræðingar frá landinu hafa numið við Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og konungurinn heimsótti virkjunina í Svartsengi þegar hann kom til Íslands.
Íslensk sendinefnd til Jórdaníu í nóvember
Forseti lýsti hvernig þátttaka Íslendinga í jarðhitaverkefnum víða um heim hefur vaxið ört á undanförnum árum. Orkufyrirtæki, bankar og fjárfestingarsjóðir legðu nú aukna áherslu á slík verkefni og íslenskir verkfræðingar og vísindamenn væru að störfum víða um veröld. Viðskiptasendinefnd frá Íslandi er væntanleg til Jórdaníu í nóvember næstkomandi og taldi konungur kjörið að þá færu fram viðræður milli íslenskra og jórdanskra aðila. Útflutningsráð skipuleggur ferð viðskiptasendinefndarinnar, samkvæmt tilkynningu.
Abdullah II konungur nefndi að ýmis ríki í Mið-Austurlöndum tækju þátt í fjárfestingum í Jórdaníu og gætu þau hugsanlega átt hlut að nýtingu hreinnar orku í landinu. Forseti Íslands rakti árangurinn af viðræðum sínum við forystumenn í Abu Dhabi og Katar fyrr á þessu ári.
Þá vakti konungur máls á áhuga smærri ríkja í Mið-Austurlöndum til að efla rannsóknir á vettvangi erfðafræði og tengja hana baráttu við ýmsa arfgenga sjúkdóma í þessum heimshluta. Forseti lýsti árangri Íslenskrar erfðagreiningar og greindi konungi frá því að stjórnendur fyrirtækisins hefðu mikinn áhuga á slíkum rannsóknum í Arabaheiminum.
Aukinn stuðningur við framboð Íslands
Þá ræddu konungur og forseti um framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og aukinn stuðning Íslendinga við málefni Palestínumanna sem m.a. hefði komið fram í heimsóknum utanríkisráðherra Íslands, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, til Jórdaníu, Palestínu og Ísrael. Konungur fagnaði þessum áherslum og lýsti sig og stjórnvöld í Jórdaníu reiðubúin til ítarlegra samræðna og samvinnu við Íslendinga óháð því hvort Ísland næði kjöri í öryggisráðið, samkvæmt tilkynningu.