Líkamsárás átti sér stað í kennslustofu á Litla-Hrauni á fimmtudagsmorgun. Þrír fangar, sem sitja af sér dóm vegna Pólstjörnumálsins, eru grunaðir um að hafa ráðist að einum samfanga sínum og meðal annars sparkað ítrekað í hann liggjandi. Atvikið átti sér stað þegar kennarinn brá sér út úr kennslustofunni til að ljósrita námsefni.
Heimildir 24 stunda herma að minnsta kosti þrír fangar séu grunaðir um árásina. Þrettán aðrir fangar voru staddir í stofunni en enginn þeirra hefur fengist til að bera vitni.
Verða aðskildir til frambúðar
Samkvæmt heimildum 24 stunda hafa fangelsismálayfirvöld rökstuddan grun um hverjir voru gerendur og gripu til aðgerða með því að færa einn þeirra samstundis til vistunar í Hegningarhúsinu. Í kjölfarið verða gerðar ráðstafanir til að aðskilja mennina þrjá í vistun til frambúðar. Þeir munu því ekki afplána allir saman á ný.
Mennirnir þrír voru í vor grunaðir um að hafa ráðist að samfanga og stungið hann í rasskinn með útskurðarjárni. Mennirnir voru þá settir í einangrun og yfirheyrðir sem sakborningar. Það mál var hins vegar fellt niður vegna ónógra sönnunargagna.