Karlmaður var í dag sýknaður af ákæru um kynferðisbrot í Héraðsdómi Reykjaness. Var hann ákærður fyrir að hafa á heimili sínu í maí í fyrra haft samræði við heyrnarskerta konu sem gat ekki við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Ekki var ágreiningur um að þau hafi haft samfarir en vafi þótti leika á að samfarirnar hafi verið gegn vilja konunnar og því hafi borið að sýkna manninn. Allur sakarkostnaður samtals 871.920 krónur greiðist úr ríkissjóði.
Í dómskjölum kemur fram að maðurinn hafi verið handtekinn ölvaður á heimili
sínu eftir að konan greindi nágranna mannsins frá meintri nauðgun.
Konan sagðist hafa farið heim með manninum þar sem hann hafi heitið henni áfengi
en hún væri alkóhólisti og hana hefði vantað áfengi. Fljótlega eftir komuna heim til
hans hafi hann boðið henni drykk og hún ekki munað meira eftir að hafa drukkið
vínglasið. Hún hafi síðan rumskað við að maðurinn hafi verið að kyssa hana. Hún
hefði sagt honum að hætta þessu og þá fundið að hanni var að hafa samfarir við
hana, sem hafi verið mjög harkalegar og hefði henni verið illt og fundist þetta
óþægilegt. Hún hefði reynt að láta hann hætta en ekki getað það og ákveðið að
tala og sagt honum að hætta þessu og reynt að þrýsta honum ofan af sér. Hún
hefði náð að losa hann af sér og flýtt sér út.
Karlmaðurinn sagði hins vegar að konan hafi leitað á hann inni í stofu og það heldur gróflega. Þau hafi síðan farið inn í svefnherbergi þar sem þau hafi haft samfarir með hennar vilja.
Í niðurstöðu læknis á Neyðarmóttökunni segir m.a. að konan hafi komið á neyðarmóttöku í fylgd lögreglu og að hún hafi verið drukkin og æst. Hún hafi slegið frá sér og þurft hafi að halda henni. Síðan hafi náðst samband með hjálp táknmálstúlks. Sagan hafi þó verið slitrótt en ekkert ósennileg. Hún hafi verið með sjálfsmorðshugsanir og hótanir og því verið lögð inn á geðdeild. Þá segir að byrjandi marblettir sjáist á vinstri upphandlegg, eins og eftir greip. Lítill roðablettur sé á hægra innri skapabarmi.
Segir í niðurstöðu dómsins að læknisvottorð neyðarmóttöku bendi ekki til þess að maðurinn hafi beitt konuna neins konar líkamlegu ofbeldi. Bar læknir fyrir dómi að ekki væri hægt að fullyrða út frá marblettunum á upphandlegg að henni hefði verið haldið. Þá væri ekki endilega hægt að draga ályktanir af litlum roðabletti innan á hægri innri skapabarmi konunnar. Þekkt væri þó að slíkur roði gæti myndast við óundirbúnar samfarir.
Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að ekki leiki vafi á að maðurinn hafði samfarir við konuna, en á hinn bóginn standa orð mannsins gegn orðum konunnar um það hvort samfarirnar hafi verið með vitund og vilja konunnar, en engir sjónarvottar voru að atvikum.
„Að virtum skýrslum ákærða og kæranda hjá lögreglu og fyrir dómi svo og öðru því er fram hefur komið í málinu og að framan hefur verið rakið þykir vafi leika á því að ákærði hafi mátt ætla að samfarirnar væru gegn vilja kæranda eða að hún væri í þannig ástandi að geta ekki spornað við þeim. Þennan vafa ber að skýra ákærða í hag. Með hliðsjón af þessu og skírskotun til ofangreindra lagaákvæða, þykir ákæruvaldið því ekki hafa fært sönnur, sem ekki verða vefengdar með skynsamlegum rökum fyrir því að ákærði hafi framið brot það sem honum er í ákæru gefið að sök og því ber að sýkna hann af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu,” að því er segir í niðurstöðu héraðsdóms.