Wall Street Journal fjallar um hrefnuveiðar á Íslandi

Hrefnukjöt á upp á pallborðið hjá sumum en ekki öllum.
Hrefnukjöt á upp á pallborðið hjá sumum en ekki öllum. mbl.is/Golli

Bandaríska dagblaðið Wall Street Journal fjallar í dag um hrefnuveiðar á Íslandi og birtir auk þess nokkrar uppskriftir að góðri hrefnusteik. Blaðamaður WSJ ræðir m.a. við Gunnar Bergmann Jónsson, framkvæmdastjóra Hrefnuveiðimanna ehf., sem segir að veiðarnar séu ekki enn farnar að skila hagnaði.

Gunnar segist vonast til þess að hrefnuveiðikvótinn verði aukinn, en nú má veiða 40 dýr. Þá vill hann kynna ungu kynslóðinni á Íslandi fyrir hvalkjöti og að Íslendingar bæti hrefnunni á listann yfir grillkjöt sumarsins. Þá segir hann fyrirtækið stefna á að flytja kjötið út, t.d. til Japans.

Hrefnuveiðimenn ehf. var stofnað árið 2006 til þess að halda um sölu á hrefnukjöti. Að stofnun fyrirtækisins stóðu þeir aðilar sem áttu hlutdeild að stofnun Félags hrefnuveiðimanna.

Hrefnuveiðar halda áfram í haust

Fram kemur á vef Félags hrefnuveiðimanna að atvinnuveiðar á hrefnu muni halda áfram fram á haustið, þar til kvótinn hafi verið kláraður. Þá kemur fram að alls hafi veiðst 32 hrefnur af þeim 40 dýra kvóta sem gefin var út síðastliðið vor.

„Hrefnukjötið sem komið hefur af veiðum sumarsins hefur verið selt í öllum verslunum landsins, að undanskildum verslunum Baugs. Salan hefur gengið vel bæði í verslunum og á veitingahúsum. Nú þegar líður á haustið verður að frysta fyrir veitingahúsamarkaðinn þar til veiðar byrja aftur næsta vor,“ segir á vef félags hrefnuveiðimanna.

Frétt Wall Street Journal.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert