Alls voru á árunum 2005, 2006 og 2007 skráð í svonefnt lögreglukerfi 40 mál eða verkefni sem á einhvern hátt tengjast mótmælum gegn Kárahnjúkavirkjun og stóriðjuframkvæmdum. Þetta kemur fram í skýrslu, sem dómsmálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi.
Í skýrslunni segir, að samskipti lögreglu við meinta mótmælendur Kárahnjúkavirkjunar og stóriðjuframkvæmda umrædd ár, þar sem beitt var einhvers konar þvingunarúrræðum af hálfu lögreglu, leiddi til þess að alls voru skráð 19 mál í lögreglukerfið.
Að þessum málum komu alls 219 lögreglumenn. Alls höfðu 83 einstaklingar réttarstöðu sakborninga í málunum. Af sakborningum eru 14 eða 16,9% Íslendingar en 69 eða 83,1% með erlent ríkisfang.
Alls voru 104 sakborningar handteknir í málunum og auk þess voru 14 sviptir frelsi án þess að vera skráðir í lögreglukerfið sem handteknir; oft var um sömu einstaklinga að ræða. 14 sakborningar voru sviptir vegabréfi í þágu rannsóknar máls.
Við leit í tjaldi eins mótmælanda, sem umráðamaður tjaldsins heimilaði, fundust fíkniefni. Ekki er um það að ræða að í öðrum tilvikum hafi verið framkvæmdar leitir í húsum eða öðrum dvalarstöðum mótmælenda.